Nám og fræðsla

The control has thrown an exception.

Nám og fræðsla

Heilbrigðisritarabraut 

Heilbrigðisritaranám er kennt í Fjölbrautaskólanum við Ármúla og er 120 feininga starfsnám með námslok á 2. hæfniþrepi. Námið tekur að jafnaði fimm annir (tvö og hálft ár með starfsnámi). Það skiptist í almennar greinar, heilbrigðisgreinar, sérgreinar brautar og vinnustaðanám. Tilgangur námsins er að búa nemendur undir ritarastörf á heilbrigðisstofnunum og hjá fyrirtækjum í heilbrigðisþjónustu. Þau störf eru fjölbreytt og hafa að mestu leyti þróast á vettvangi í takt við þarfir stofnana.

Fjölbrautaskólinn við Ármúla hefur boðið upp á Brúarnám fyrir starfandi skrifstofumenn síðastliðin ár í samvinnu við Fræðslusetrið Starfsmennt. Heilbrigðisritarabrú er ætluð fullorðnu fólki sem óskar að fá metna starfsreynslu og óformlegt nám til styttingar á námi á heilbrigðisritarabraut. Skilyrði til innritunar í nám á heilbrigðisritarabrú eru að umsækjandi sé orðinn 22 ára gamall og framvísi staðfestingu frá vinnuveitanda um að hann hafi a.m.k. 4 ára starfsreynslu og starfi enn við ritarastörf á heilbrigðissviði. Auk þess þarf viðkomandi að hafa lokið 160 stunda starfstengdum námskeiðum á vegum stéttarfélaga eða stofnana/fyrirtækja í heilbrigðisþjónustu sem hafa það að markmiði að auka kunnáttu og færni til ritarastarfa á heilbrigðissviði.

Markmið náms á heilbrigðisritarabraut er að nemandi öðlist nauðsynlega þekkingu, viðhorf og færni til þess að stunda ritarastörf á heilbrigðisstofnunum, að hann geti unnið í samvinnu við aðra og að hann geti tekist á við raunverulegar aðstæður úti á stofnunum. Um er að ræða sérhæfð ritarastörf sem krefjast fagmennsku. Til þess að ná góðum árangri í starfi þarf viðkomandi að hafa gott vald á íslensku og eiga auðvelt með mannleg samskipti, búa yfir umtalsverðri tölvukunnáttu, sérstaklega í ritvinnslu og sérhæfðum forritum um sjúklinga- og starfsmannabókhald hvers konar, auk þekkingar á hagnýtri notkun upplýsingatækninnar. Jafnframt er nauðsynlegt að þekkja til algengustu hugtaka sem starfsfólk heilbrigðisstofnana notar og hafa innsýn í hugmyndafræði og skipulag heilbrigðisþjónustunnar í landinu.

Aðalnámskrá framhaldsskóla fyrir námsbraut heilbrigðisritara

Námskeið  

Mikilvægt er að sinna eigin starfsþróun og ýmiss námskeið og námsleiðir bjóðast heilbrigðisriturum, meðal annars hjá:

  • Fræðslusetrinu Starfsmennt sem býður opinberum starfsmönnum upp á starfstengda símenntun og veitir stofnunum heildstæða þjónustu á sviði starfsþróunar. Þjónusta er sérsniðin að þörfum þátttakenda um allt land í krafti faglegs samstarfsnets og öflugs vefkerfis. Starfsmennt skapar samstarfsvettvang starfsmanna og stjórnenda þar sem unnið er að þróun þekkingar og þjálfunar í þágu einstaklings og samfélags. 

    Fræðslusetrið Starfsmennt er í eigu fjármála- og efnahagsráðuneytisins og flestra stéttarfélaga ríkisstarfsmanna innan BSRB. Nám og þjónusta setursins er félagsmönnum stéttarfélaga sem aðiled eiga að setrinu að kostnaðarlausu sem hluti af kjarasamningsbundnum réttindum og flest almenn námskeið eru opin öðrum gegn gjaldi.

  • Framvegis - miðstöð um símenntun sem er framsækin símenntunarmiðstöð með það að markmiði að bjóða metnaðarfullt nám og námskeið fyrir fullorðna sem svara þörfum atvinnulífsins. Oft eru þar í boði námskeið sem henta heilbrigðisstarfsfólki. 

  • Fræðslu- og símenntunarmiðstöðvum hringinn í kringum landið, sjá tengla á þær hér.